Fara í efni

Tuttugu ára afmæli IS 50V

Merkur áfangi náðist 5. desember síðastliðinn en þá voru tuttugu ár síðan fyrsta útgáfa af IS 50V kom út. Nánar er hægt að lesa um fyrstu útgáfu IS 50V í febrúarútgáfu Kvarðans árið 2004.

Tíminn verður að leiða í ljós hvort IS 50V nái tuttugu árum í viðbót en gagnasettið er notað víða í samfélaginu.

Á þessu ári hafa komið út nokkrar útgáfur af ýmsum lögum í IS 50V.

Í ágúst og september komu út útgáfur af Strandlínu. Kolbeinsey og Eldey var bætt við í strandlínuna og einnig var gerð smávægileg breyting við Tálknafjörð.

Það komu út tvær útgáfur af laginu Mörk í janúar og október, m.a. vegna breytinga á nafni sveitarfélags. Sameinað sveitarfélag Stykkishólms og Helgafellssveitar fékk nafnið Sveitarfélagið Stykkishólmur en einnig höfðu verið gerðar smá lagfæringar og breytingar hér og þar. Tvö lög eru ekki lengur í markalaginu þar sem gagnalögin fyrir heilbrigðis- og sóttvarnaumdæmi eru komin til Embættis landlæknis en sú stofnun ber ábyrgð á þeim. Vegna breytinga á strandlínu við Tálknafjörð þá breyttist lega allra laganna.

Í desember voru gefnar út nýjar útgáfur í lögunum Samgöngur og Örnefni en síðarnefnda lagið kemur út alls fjórum sinnum á ári. Það er misjafnt hve oft samgöngulagið kemur út en það kom einnig út í byrjun október og í febrúar. Vegabreytingarnar á Kjalarnesi, í Gufudalssveit og í Refasveitinni eru komnar inn og einnig ný brú yfir Núpsvötn svo eitthvað sé nefnt

Örnefnalagið breytist stöðugt. Skráningaraðilar á Norður- og Austurlandi hafa verið virkastir að skrá örnefni að undanförnu. Örnefnateymi Landmælinga Íslands hefur hnitað inn fjölmörg örnefni af kortum og loftmyndum sem er að finna á drifum og skjalasafni stofnunarinnar. Örnefnateymið er í miklu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar upp koma vafaatriði. Sem dæmi um það má nefna að þegar jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hófust aftur í haust þá var ritháttur á Sýlingarfelli mismunandi í fjölmiðlum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fór yfir málið og er niðurstaðan að það er r í Sýlingarfelli.

Heildarfjöldi örnefna í desemberútgáfunni er nú rúmlega 176 þúsund en það má nefna að í desemberútgáfunni fyrir ári síðan var heildartalan rúmlega 162 þúsund og hefur örnefnum því fjölgað um 14 þúsund í örnefnagrunninum á einu ári. Uppfærð örnefni birtast vikulega í vefsjám.

Í fyrstu útgáfu af IS 50V voru örnefnin tæp 43 þúsund en núna er fjöldi þeirra rúmlega 176 þúsund.