Fara í efni

Umfang

Opinberir aðilar

Til opinberra aðila teljast stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira, eins og skilgreint er í Upplýsingalögum nr. 140/2012. Allir opinberir aðilar sem ekki eru með undanþágu frá Upplýsingalögum falla undir lög nr. 44/2011. Þeim opinberu aðilum sem fara með stafrænar landupplýsingar ber skylda að uppfylla lögin hvað varðar aðgengi að gögnum og skráningu lýsigagna. Þeir þurfa jafnframt að huga að staðlaðri framsetningu / uppbyggingu gagnanna, einkum þeirra sem falla undir INSPIRE tilskipun Evrópubandalagsins.

Einkaaðilar

Einkaaðilar falla ekki undir lög nr. 44/2011 en hafi einkaaðili sótt um og fengið leyfi til að tengja landupplýsingar sínar við landupplýsingagátt gilda lögin um þau gögn.

 

Lög og reglugerðir um grunngerðir stafrænna landupplýsinga

Árið 2011 voru sett lög nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á Íslandi. Landmælingar Íslands sjá um framkvæmd laganna fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það felur m.a. í sér frumkvæði við innleiðingu laganna, þekkingarmiðlun og rekstur miðlægrar landupplýsingagáttar sem stenst kröfur INSPIRE tilskipunarinnar. Reglugerðir nr. 390/2012 um lýsigögn fyrir stafrænar landupplýsingar og nr. 414/2014 um stafrænar landupplýsingar voru settar í kjölfarið og lýsa þær tæknilegum kröfum og útfærslum laganna.

Gildissvið

Lög nr. 44/2011 taka til stafrænna landupplýsinga sem eru í eigu eða á vegum stjórnvalda og varða íslenskt land, landhelgi og efnahagslögsögu. Lög þessi taka einnig til stafrænna landupplýsinga í eigu eða á vegum lögaðila að svo miklu leyti sem þær verða til eða er aflað í tilefni af hinu opinbera hlutverki þeirra eða þjónustu. Lög þessi hafa ekki áhrif á höfundarétt stjórnvalda að landupplýsingum sem falla undir lögin.