Fara í efni

Erlent samstarf

Erlend samvinna hjá Landmælingum Íslands hefur vaxið undanfarin ár og á því sviði er samvinna við norrænar systurstofnanir mikilvægust auk þess sem þátttaka í EuroGeographics skiptir miklu, en það eru samtök korta- og fasteignastofnana í 43 löndum Evrópu. Eftirfarandi er stutt yfirlit um helsta vettvang erlenda samstarfsins hjá Landmælingum Íslands:

 

 

 

Norrænt samstarf á sviði landupplýsinga og fasteignaskráningar

Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands hafa um langt árabil tekið virkan þátt í samstarfi norrænna korta- og fasteignastofnana. Þátttakendur í samstarfinu eru forstjórar stofnananna auk þess sem nokkrir millistjórnendur taka þátt á ársfundum og í verkefnum vinnuhópa. Starfið er skipulagt þannig að til grundvallar liggur samstarfssamningur þar sem markmið og fyrirkomulag eru skilgreind.

Norræna landmælingaráðið (Nordisk Kommission for Geodesy)

Landmælingar Íslands taka þátt í starfi norræna landmælingaráðsins. Þátttakendur eru sérfræðingar á sviði landmælinga frá norrænum kortastofnunum og nokkrum norrænum háskólum. Starfið er aðallega byggt á starfi vinnuhópa en auk þess fundar stjórn landmælingaráðsins um tvisvar á ári. Finnska landmælingastofnunin (FGI) hefur verið mikilvægur samstarfsaðili Landmælinga Íslands á þessu sviði, ekki síst við útreikninga á nýju samræmdu hæðarkerfi fyrir landið.

EuroGeographics, samtök korta- og fasteignastofnana

EuroGeographics eru samtök korta- og fasteignastofnana í Evrópu. Í samtökunum eru 56 stofnanir frá 45 löndum og eru þau faglegur vettvangur korta- og fasteignastofnana í Evrópu. Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands eru aðilar að EuroGeographics fyrir Íslands hönd en þátttaka íslensku stofnananna er mjög mikilvæg og tengist hagsmunagæslu Íslands og þekkingaröflun um hvað gerist í Evrópu á þessu sviði.

Arctic Spatial Data Infrastructure (Arctic SDI)

Arctic SDI verkefnið snýst um að byggja upp grunngerð landupplýsinga á Norðurslóðum og byggir það á samvinnu 10 kortastofnana frá Íslandi, Grænlandi, Dannmörku (Færeyjum), Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Verkefnið á sér nokkra sögu en á fundi forstjóra norrænna kortastofnana sem haldinn var í Illulissat á Grænlandi í september 2008 var samþykkt að beina því til Norðuskautsráðsins (Arctic Council) að kortastofnanir Norðurlandanna myndu hafa frumkvæði að því að byggja upp grunngerð fyrir landupplýsingar á norðurslóðum. Síðan þá hefur verið unnið að málinu í náinni samvinnu við Norðurskautsráðið og fleiri. Forstjóri Landmælinga Íslands er formaður stjórnar verkefnisins.

Bandaríska kortastofnunin National Geospatial-Intelligence Agency

Í gildi er samningur um landupplýsingar og kortamál á milli Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Íslands. Landmælingar Íslands fara með framkvæmd þessa samnings fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og er þar um að ræða samskipti og gagnaskipti við bandarísku herkortastofnunina sem nefnist National Geospatial-Intelligence Agency (https://www1.nga.mil/Pages/Default.aspx).

Rannsóknarverkefnið HELM – (Harmonised European Land Monitoring)

Landmælingar Íslands eru aðilar að rannsóknarverkefni og tengslaneti þar sem markmiðið er að þróa sem bestar aðgerðir við að kortleggja landnotkun og landgerðir með samræmdum hætti í Evrópu. Verkefnið byggist mikið á því að þróa aðferðir við að túlka mismunandi yfirborð með notkun margvíslegra fjarkönnunargagna og að miðla þekkingu á því sviði. Verkefnið er hluti af 7. rammáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun.