Fara í efni

Um mælingar

Landmælingar Íslands reka núverandi landshnitakerfi sem var fyrst mælt árið 1993 og endurmælt 2004 og 2016. Nýja netið, sem var fyrst mælt 1993, kom í stað eldra þríhyrninganets sem var mælt 1955 og 1956 og kennt við Hjörsey.

Landshnitakerfi, sem er skilgreint með ákveðna viðmiðun, samanstendur af mælistöðvum á yfirborði jarðar sem tengdar eru saman með mælingum. Þessar mælistöðvar eru koparboltar sem steyptir eru í klappir, eða stöplar með koparboltum. Hinar almennu kröfur, sem gerðar eru til landshnitakerfis eru að kerfið sé varanlegt og aðgengilegt þ.e. unnt sé að tengja mælingar við kerfið án mikils tilkostnaðar. Einnig verður kerfið að vera mælt með meiri nákvæmni en mælingar notanda, þannig að hann geti án mótsagna tengt mælingar við kerfið á fleiri en einum stað.