Fara í efni

SPOT 5 gervitunglamyndir

GervitunglamyndFrá árinu 2002 hafa Landmælingar Íslands staðið fyrir sameiginlegum kaupum innlendra stofnana á SPOT-5 gervitunglamyndum af Íslandi. Þessar SPOT myndir eru nú orðnar yfir 80 talsins og þekja allt landið, en haldið er áfram að uppfæra safnið með kaupum á nokkrum myndum árlega, einkum af þeim stöðum þar sem landbreytingar eða breytingar á landnotkun hafa orðið.

SPOT-5 myndirnar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og eru notaðar reglubundið í margs konar verkefnum hér á landi. Helstu eiginleikar myndanna eru eftirfarandi:

  • Myndirnar eru teknar úr 832 km hæð annað hvort beint niður eða svolítið á ská eftir því hvort gervitunglið flýgur beint yfir staðinn sem myndataka hefur verið pöntuð af eða ekki.
  • Hver mynd nær yfir svæði sem er um 60 km x 60 km eða 3600 km2 að stærð.
  • Myndirnar eru fjölrása, þ.e. þær eru teknar í 4 aðgreindum litböndum; í grænu og rauðu ljósi á sýnilega sviðinu og á tíðniböndum á nær- og miðinnrauðu sviði (G, R, NIR og MIR) sem og á einu pankrómatísku bandi (pan-bandi) á sýnilegu sviði.
  • Upplausn eða greinihæfni er 10 m í litböndunum en 2,5 m í pan-bandinu sem notað er til þess að skerpa litaframsetningar SPOT-myndanna.
  • Myndunum fylgir tilbúið blátt band (B) þannig að hægt er að setja myndirnar fram í raunlitum (B, G, R).
  • Myndirnar eru uppréttar og hnitsettar. Staðsetningarnákvæmni í þeim er um 5 metrar.

 

Nú er til SPOT-5 þekja af öllu landinu með myndum sem teknar voru 2002 – 2007, en 2008 og 2009 voru keyptar nokkrar myndir af þeim stöðum þar sem fyrri myndir eru orðnar gamlar eða eru gallaðar (t.d. vegna skýja og skýjaskugga) og þar sem verulegar breytingar hafa orðið á yfirborði eða landgerðum (t.d. vegna framkvæmda eða bráðnunar jökla). Alls voru keyptar 7 SPOT myndir á þessum tveimur árum. Myndirnar hafa ákveðið númer sem segir til um staðsetningu þeirra í staðsetningarkerfi sem nær til allrar jarðarinnar (braut og röð), en einnig eru þær auðkenndar hér með staðarnafni sem allir þekkja og er nálægt miðju hverrar myndar.