Fara í efni

Grunnstöðvanet

Grunnstöðvanetið er grundvöllur annarra landmælinga hér á landi og þar með undirstaða stafrænnar kortagerðar, landfræðilegra upplýsingakerfa og verklegra framkvæmda. Landmælingar Íslands sjá um viðhald grunnstöðvanetsins með reglulegri endurmælingu. Vegna legu Íslands á Norður-Atlantshafshryggnum er erfitt að viðhalda nákvæmu landmælinganeti fyrir allt Ísland. Landið er að reka í sundur með um það bil 1 cm hraða í hvora átt árlega auk þess sem jarðskjálftar og eldsumbrot geta valdið staðbundinni bjögun á netinu. Til þess að viðhalda nákvæmni grunnstöðvanetsins er því nauðsynlegt að endurmæla það reglulega.

Árið 1993 mældu íslenskar stofnanir í samstarfi við IfAG og IfE í Þýskalandi nýtt grunnstöðvanet á Íslandi með GPS tækni. Mæliátak þetta fékk nafnið ISNET93 og viðmiðunin fékk nafnið ISN93. Grunnstöðvanetið leysti af hólmi Hjörsey55 netið sem þá var orðið úrelt vegna aukinnar kröfu um nákvæmni og aðgengi. Með tilkomu netsins urðu landmælingar mun auðveldari en áður auk þess sem grundvöllur skapaðist fyrir alla til að vinna í sama kerfinu.

Sumarið 2004 var grunnstöðvanet Landmælinga Íslands frá árinu 1993 endurmælt með GPS tækni. Mæliátakið var samvinnuverkefni íslenskra stofnana og hlaut nafnið ISNET2004. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskir aðilar sjá alfarið um skipulagningu og framkvæmd mælingaverkefnis af þessari stærðargráðu.

Sumarið 2016 var grunnstöðvanet Íslands mælt í þriðja sinn. Gerðir hafa verið hnitalistar þeirra mælistöðva sem unnið var úr eftir ISNET2016 mælingarnar og mynda grunninn fyrir nýja viðmiðun ISN2016

Verklagsreglur fyrir innmælingar og útsetningar

Nánari upplýsingar um ISN93 viðmiðunina

Nánari upplýsingar um ISN2004 viðmiðunina

Nánari upplýsingar um ISN2016 viðmiðunina

Hnitaskrár ISN93 ,ISN2004 og ISN2016

Kort af mælistöðvum í GPS-grunnstöðvanetinu