Fara í efni

Mörk sveitarfélaga

Mörk sveitarfélaga á Íslandi hafa tekið miklum breytingum á sl. 120 árum. Landmælingar Íslands hafa skrásett þessar breytingar og er m.a. hægt að sjá þær í Sveitarfélagasjá. Þar er hægt að skoða stöðu sveitarfélaganna frá 1904, sem eru elstu heimildir sem LMÍ hefur, frá 1948, þegar sveitarfélögin voru flest og frá 1994, sem er um það leiti sem mikil fækkun sveitarfélaga er að fara af stað.

Svo er að sjálfsögðu hægt að sjá núverandi stöðu.

Að auki er hægt að skoða heimildir núverandi og eldri sveitarfélagamarka á einfaldan hátt í Sveitarfélagasjánni. Ef smellt er á línu þá birtist dálkur og ef smellt á dálkinn heimild þá birtist tengill annað hvort á pdf eða jpg formati. Heimildirnar birtast eins og þær líta út í skjalasafni Landmælinga Íslands. Skjölin geta verið hæstaréttardómar, samkomulag á milli sveitarfélaga, handskrifuð skjöl (t.d. gömul landamerkjaskjöl) eða teikningar sem hafa verið teiknaðar á kort Landmælinga Íslands svo eitthvað sé nefnt. Á nokkrum stöðum (aðallega á jöklum) eru engar heimildir.

Engin ábyrgð er tekin á áreiðanleika þeirra gagna sem birt eru og komi upp vafi um legu marka skal upplýsingum um slíkt komið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eða Landmælinga Íslands. Einnig er hægt að fá frekari upplýsingar með því að senda tölvupóst á lmi hjá lmi.is.

Nánari upplýsingar um sveitarfélagalagið er að finna í lýsigagnagátt Landmælinga Íslands og þar er hægt að ná í lagið bæði sem wms og wfs þjónustur.