Fara í efni

Skipulag landupplýsinga

Skref fyrir skref

Til að framtíðarsýn um grunngerð stafrænna landupplýsinga á Íslandi geti orðið að veruleika þurfa opinberir aðilar að huga að landupplýsingum sínum og vinna að verkefninu skref fyrir skref.

Öflun

Við öflun opinberra landupplýsinga sem falla undir grunngerðarlögin ber aðilum að tryggja aðgengi að gögnunum. Hafa skal í huga að gögn sem eru keypt/aflað fyrir opinbert fé séu ekki með hamlandi notendaskilmála heldur nýtist ríkinu öllu og þegnum þess á sem bestan hátt.

Notendaskilmálar

Notendaskilmálar gagna skulu vera eins opnir og hægt er. Þannig séu þeir ekki hamlandi þáttur í notkun á opinberum landupplýsingum. Opinberir aðilar þurfa því að fara yfir notendaskilmála gagna sinna og þekkja þá. Opinberir aðilar skulu jafnframt hvetja til notkunar á gögnum sínum og fara á undan með góðu fordæmi við nýtingu landupplýsinga í starfsemi sinni.

Leyfi fyrir gjaldfrjáls gögn Landmælinga Íslands https://www.lmi.is/is/um-lmi/starfsemi/skilmalar-og-gjaldskra/gjaldskra 

Skipulag gagna

Landupplýsingar opinberra aðila þurfa að vera skipulagðar hvort heldur sem er í skráarformi eða í gagnagrunni. Tryggja þarf aðgengi að gögnunum og til þess þarf að vera lýsing á skipulaginu þannig að þeir sem að því koma viti hvernig það er.

Lýsigögn

Lýsigögn eru upplýsingar um gögnin sjálf s.s. um uppruna þeirra, gæði, eiganda og fleira. Opinberum aðilum ber að sjá til þess að lýsigögn séu skráð í Landupplýsingagátt LMÍ og sjá starfsmenn grunngerðarhóps um að skrá lýsigögnin svo að tæknileg atriði séu samræmd. Sú skráning veitir ekki aðgang að gögnunum sjálfum heldur gefur upplýsingar um t.d. hvort og hvar má fá aðgengi að þeim. Skráning lýsigagna er án efa mikilvægasti hluti hverrar grunngerðar og því mikilvægt að sinna henni samviskusamlega.

Lýsigagnagátt  https://gatt.lmi.is/geonetwork/srv/ice/catalog.search#/home

Miðlun

Miðlun gagna sem tilheyra stafrænni grunngerð landupplýsinga fer fram í gegnum skoðunar- og niðurhalsþjónustur. Einnig á að skrá lýsigögn um gögnin.

Fyrirkomulagið við miðlun gagna sem tilheyra stafrænni grunngerð eru eins og er lýst í lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar nr. 44/2011. Opinberum aðilum ber að miðla stafrænum landupplýsingum á samræmdan hátt eins og skilgreint er í lögunum og stofnanir geta rekið eigin niðurhals- og skoðunarþjónustur í þessum tilgangi. Landmælingum Íslands ber að starfrækja landupplýsingagátt til að veita öllum aðgang að gögnum grunngerðarinnar og upplýsingum um þær (lýsigögn). Skoðunar- og niðurhalsþjónustur eiga að vera aðgengilegar í gegnum landupplýsingagáttina.

Landupplýsingagátt: https://kort.lmi.is/

Niðurhalssíða Landmælinga Íslands https://www.lmi.is/is/landupplysingar/gagnagrunnar/nidurhal