Fara í efni

Cocodati

Landmælingar Íslands hafa unnið að þróun á nýrri útgáfu af Cocodati (Coordinate Conversion and Datum Transformation for Iceland). Um er að ræða algera endurnýjun á forritinu og byggir vörpunarvél þess á nýjustu útgáfunni af PROJ, nánari upplýsingar https://proj4.org/. PROJ er safn kortavarpanna og aðgerða til að varpa á milli hnitakerfa og er notað í bakgrunni í mörgum landupplýsingaforritum t.d. QGIS.

Í forritinu verður hægt að breyta á milli helstu hnitaforma sem og varpa á milli ISN hnitakerfanna. Þá er hægt að breyta sporvöluhæðum yfir í ISH2004 hæðir eða öfugt.

Hægt er að setja fram staðsetningu punts í ákveðinni viðmiðunn á marga vegu. Hnattstaða punktsins er hins vegar alltaf sú sama. Þegar varpað er yfir í aðra viðmiðun er líklegast að hnattstaða punktsins breytist. Þegar einungis er breytt milli hnitaforma tapast engin nákvæmni. Þegar varpað er á milli hnitakerfa hins vegar tapast alltaf einhver nákvæmni.

Ekki er hægt að notast við hefðbundnar vörpunnaraðferðir til þess að taka á landreki og óreglulegum hæðarbreytingum eins og við glímum við á Íslandi. Varpanir milli ISN kerfanna byggja á líkönum á mismuni þeirra. Þessi líkön munu alltaf hafa skekkjur rétt eins og mælingarnar sem þær byggja á. Á svæðum sem teljast stöðug má gera ráð fyrir nákvæmni upp á ±1-3 cm. Á svæðum nær flekaskilum þar sem litlar jarðhræringar hafa att sér stað má búast við nákvæmni upp á 5-7 cm. Þá má gera ráð fyrir nákvæmni upp á 10-15 cm á svæðum þar sem miklar jarðhræringar hafa átt sér stað, t.d. á Suðurlandi og í kringum Holuhraun.

Þegar breytt er úr hæðum yfir sporvölu yfir í hæðir í landshæðarkerfi ISH2004 er notast við nýjustu geóíðu Landmælinga Íslands sem gerð var árið 2011. Geóíðan var löguð að landshæðarkerfinu með um 316 GPS mældum fastmerkjum. Hnit og sporvöluhæðir þessara fastmerkja voru í ISN2004 en sú viðmiðun líkt og ISH2004 hefur viðmiðunartímann 2004.6. Ef reiknaðar eru ISH2004 hæðir útfrá hnitum í ISN93 eða ISN2016 þá er leiðrétt fyrir hæðarbreytingum, þannig að hæðin í ISH2004 breytist ekki jafnvel þótt sporvöluhæðin sé breytt. Nákvæmni geóíðunar meðfram mælilínum landshæðarkerfisins er um 3-5 cm, en erfitt er að fullyrða með vissu hversu nákvæm hún er utan þeirra. Út frá eðli hennar má þó ætla að það sé ekki yfir 10 cm.

Vörpun úr gömlu hnitakerfunum Hjörsey55 og Reykjavík 1900 byggir á hefðbundnum aðferðum. Nákvæmni þeirra eru ±3m fyrir Hjörsey en ±25m fyrir Reykjavik1900.