Fara í efni

Sýna fram á miklar jöklabreytingar

Vísindamenn frá nokkrum íslenskum stofnunum hafa sýnt fram á miklar breytingar á flatarmáli íslenskra jökla með því að bera saman ýmis landfræðileg gögn. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði tímaritsins Jökuls í grein um breytingar á útbreiðslu íslenskra jökla frá lokum litlu ísaldar, seint á 19. öld. Þau gögn sem notuð voru til að meta útbreiðsluna voru m.a. AMS kort og loftmyndir bandaríska hersins, loftmyndir úr loftmyndasafni LMÍ og Loftmynda ehf sem og ýmis gervitunglagögn, þau nýjustu frá Sentinel 2 gervitunglum Copernicusaráætlunarinnar.

Heildarflatarmál jökla árið 2019 var um 10.400 km2 og hafa þeir minnkað um meira en 2200 km2 frá lokum 19. aldar eða sem svarar til 18% flatarmálsins um 1890. Gögnin sýna fram á hraðari breytingar á þessari öld en þeir hafa tapað um 750 km2 frá aldamótunum 2000. Stærri jöklarnir hafa tapað 10−30% af flatarmáli sínu en miðlungsstóru jöklarnir hafa misst allt að 80% flatarmálsins.Á þessu tímabili hafa nokkrir tugir lítilla jökla horfið með öllu.  Nánar má lesa um niðurstöður á vef Veðurstofu Íslands.

 

Hlutfallsleg breyting á yfirborði íslenskra jökla