Sögulegt loftmyndasafn í vefsjá
Í loftmyndasafni Landmælinga Íslands eru yfir 140.000 loftmyndir bæði í lit og svarthvítar sem teknar voru á árunum 1937 til 2000. Fram til þessa hefur megnið af safninu verið aðgengilegt á vef Landmælinga Íslands sem stakar myndir en nú er loftmyndasafnið birt í svokallaðri Loftmyndasjá þar sem hægt er að bera saman myndir á milli ára. Vefsjáin er aðgengileg á þessum hlekk https://loftmyndasja.lmi.is/
Loftmyndasafn Landmælinga Íslands spannar megnið af sögu Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar og fangar eldgos, borgarþróun og umhverfisbreytingar á sjö áratugum. Fyrstu loftmyndirnar af Íslandi voru teknar af Dönum á árunum 1937-1938. Árið 1941 tók breski herinn myndir af nokkrum stöðum á landinu og árið 1942 tók þýski herinn myndir af hernaðarlega mikilvægum svæðum á landinu. Árin 1945 og 1946 myndaði bandaríski herinn allt landið og svo aftur á árunum 1956-1960. Landmælingar Íslands tóku loftmyndir á árunum 1950-2000.
Í Loftmyndasjánni eru núna myndir frá árunum 1994 til 2000 en fleiri ár munu bætast við fljótlega og að lokum mun vefsjáin ná aftur til elstu loftmynda LMÍ. Það eru til loftmyndir af öllum svæðum landsins en oftast hefur verið flogið yfir höfuðborgarsvæðið, Borgarfjörð og Reykjanesskagann.
Myndirnar í Loftmyndasjánni eru unnar sjálfkrafa í mósaík sem þýðir að myndunum er skeytt saman í eina saumlausa mynd sem er lögð yfir kort og passar þannig við kortið bæði í mælikvarða og stærð. Hvert mósaík er búið til úr einu flugi og sýnir því mynd af landinu á einum tilteknum degi. Notendur munu einnig geta skoðað upprunalegu myndirnar með því að smella á tiltekið svæði í vefsjánni.
Notendur geta skoðað breytingar um allt Ísland með því að bera saman eldri loftmyndir við nýrri myndir í vefsjánni. Það er einnig hægt að nota Loftmyndasjána til að hjálpa nemendum að skilja loftslagsbreytingar með því að skoða breytingar á jöklum. Myndirnar geta einnig verið gagnlegar jarðeigendum til að sjá breytingar á landinu.
Hér eru bornar saman myndir teknar með 27 ára millibili. Vinstra megin er mósaíkmynd af Austfjörðum, myndir teknar í ágúst 1994 (LMÍ), og hægra megin er gervitunglamynd frá 2021 (Maxar).
Myndin sýnir hvernig notendur geta skoðað og hlaðið niður upprunalegum myndum í mósaíki með því að smella á svæði í vefsjánni.