Fara í efni

Skönnun prentfilma

DMA prentfilma frá Fljótavík
DMA prentfilma frá Fljótavík

Um þessar mundir er verið að skanna prentfilmusafn Landmælinga Íslands.

Í filmusafninu eru margvísleg gögn en þau elstu eiga sögu sína að rekja aftur til aldamótanna 1900 þegar landmælingadeild danska herforingjaráðsins hóf landmælingar og kortagerð hér á landi. Langt fram eftir 20. öldinni fór kortagerðin þannig fram að frumgögn s.s. hæðarlínur, vatnafar, vegir og aðrar landupplýsingar voru teiknaðar inn á filmur og kort prentuð eftir þeim. Við þessa vinnu, sem stóð fram til síðustu aldamóta þegar stafræn kortagerð hófst, varð til óhemju mikið magn af vinnugögnum sem síðan hafa varðveist hjá stofnuninni og hafa sum kortanna aldrei verið gefin út.

Í tengslum við átak stjórnvalda um sumarstörf námsmanna var ráðinn sumarstarfsmaður til að hefjast handa við að koma þessum gögnum á rafrænt form. Vinnugögnin eru komin vel til ára sinna og því ekki seinna vænna að koma þeim í farveg þar sem sagnfræðingar framtíðarinnar geta skoðað þau og velt fyrir sér. Nú er búið að skanna yfir 4000 filmur en ljóst er að mikil vinna er framundan í þeim efnum. Síðar verður ákveðið hvar þessi gögn verða geymd þannig að þau verði aðgengileg til skoðunar og notkunar fyrir áhugasama.