Fara í efni

Samstarf Landmælinga Íslands og Háskólans í Reykjavík

Guðmundur Valsson við kennslu í kennslukerfi HR.
Guðmundur Valsson við kennslu í kennslukerfi HR.
Hjá Landmælingum Íslands starfa nokkrir sérfræðingar á sviði landmælinga og fjarkönnunar. Einn þeirra er Guðmundur Valsson, mælingaverkfræðingur sem hefur starfað um alllangt skeið hjá stofnuninni, en hann hefur faglega ábyrgð á landshnita- og hæðarkerfum Landmælinga Ísland. Þessa dagana kennir Guðmundur nemendum í byggingatæknifræði við Háskólann í Reykjavík, grunnáfanga í landmælingum. Í áfanganum er farið yfir hæðar-, horna- og GPS mælingar, einnig fjarkönnun og landupplýsingafræði. Á tímum Covid-19 fer öll kennslan fram í fjarnámi í kennslukerfi háskólans. Á næstunni fer fram verkleg kennsla þar sem mælibúnaður Landmælinga Íslands verður notaður. Kennslan fer frem á svæðinu kringum Háskólann í Reykjavík, þar verða aðeins fimm nemendur í hópi og hugað verður að tveggja metra reglunni. Víða á norðurlöndum eru mikil vöntun á mælingamönnum. Þar eru landmælingar kenndar í háskólum sem sérstakt fag og útskrifast menn sem mælingaverkfræðingar. Einnig hafa kortastofnanir séð um að kenna fagið og útskrifa mælingamenn. Landmælingar Íslands fagna þessu samstarfi stofnunarinnar og Háskólans í Reykjavík og vona að með samstarfinu aukist þekking á landmælingum og meðferð landupplýsinga á Íslandi en slík gögn eru afar mikilvæg við skipulags- og mannvirkjagerð einnig við vöktun umhverfisins.