Fara í efni

Örnefnum hefur fjölgað um 13 þúsund á einu ári í IS 50V

Í örnefnalagi IS 50V er að finna skemmtileg örnefni. Þar eru meðal annars til ýmis örnefni með tengi…
Í örnefnalagi IS 50V er að finna skemmtileg örnefni. Þar eru meðal annars til ýmis örnefni með tengingar við Grýlu en aðeins þrjú sem tengjast Leppalúða.

Á síðustu mánuðum hafa komið út nokkrar útgáfur í IS 50V.

Í lok október kom út útgáfa af Strandlínu sem breyttist við Höfn í Hornafirði.

Í desember voru gefnar út nýjar útgáfur í þremur lögum í IS 50V; Mörk, Samgöngur og Örnefni. Í september kom einnig út útgáfa af örnefnum en það lag kemur út fjórum sinnum á ári.

Tvö lög eru ekki lengur í markalaginu; póstnúmeralagið er komið til Byggðastofnunar sem ber ábyrgð á þeim og síðan er línulagið sem sýnir sveitarfélagamörk ekki lengur í markalaginu. Nú eru því eingöngu flákalög í markalaginu, alls 6. Lega allra flákalaga breyttist vegna uppfærslu á strandlínunni við Höfn í Hornafirði í lok október.

Nýjum vegum hefur verið bætt við samgöngulagið (línur) og ýmsar leiðréttingar voru gerðar; vegayfirborðið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum, ný númer koma inn og eldri detta út. Dálkurinn lmi_id er ekki lengur í laginu.

Örnefnalagið breytist stöðugt. Á síðustu mánuðum hafa skráningaraðilar á Norður- og Austurlandi verið virkastir að skrá örnefni. Örnefnateymi Landmælinga Íslands hefur hnitað inn fjölmörg örnefni af kortum og loftmyndum sem er að finna á drifum og skjalasafni stofnunarinnar. Einnig hefur verið gert átak í að gera lagfæringar í grunninum, t.d. við að breyta línum og punktum með nafnbera fjall, fell og fjallgarður í fláka og finna heimildir með þeim örnefnum. Örnefnateymið er í miklu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar upp koma vafaatriði auk þess sem þaðan eru send örnefnagögn í formi mynda, korta og hnita sem eru sett inn. Þessi vinna með myndir og nafnberalistann heldur áfram enda er mikið verk óunnið þar.

Frá útgáfunni í júní voru nýskráningar alls 6070. Heildarfjöldi örnefna í útgáfunni er nú rúmlega 162 þúsund en það má nefna að í desemberútgáfunni fyrir ári síðan var heildartalan tæplega 149 þúsund og hefur örnefnum því fjölgað um 13 þúsund í örnefnagrunninum á einu ári. Uppfærð örnefni birtast vikulega í vefsjám.