Fara í efni

Nýjar jarðstöðvar auka nákvæmni

Alviðruhamraviti
Alviðruhamraviti

Í haust hefur verið unnið að því að fjölga jarðstöðvum í jarðstöðvakerfi LMÍ en það mun auka nákvæmni kerfisins við vöktun og framkvæmdamælingar.

Í samvinnu við Landsvirkjun var sett upp stöð á grunnstöðvanets-punktinum LM0326 við Blönduvirkjun og mun tilkoma hennar bæta til muna staðsetningarnákvæmni við mælingar á Norðvesturlandi.

Þá var samið við Vegagerðina um að nýta aðstöðu við nokkra vita landsins en þeir eru margir vel staðsettir fyrir jarðstöðvar, þar sem þeir eru yfirleitt við ysta haf. Nú þegar hafa jarðstöðvar verið settar upp við Landahólsvita við Stöðvarfjörð og við Alviðruhamarsvita í Álftaveri og ef veður leyfir mun einnig verða sett upp jarðstöð á Bjargtangavita á næstu vikum. Þar með verða jarðstöðvar í jarðstöðvakerfinu 29 talsins.

  

Um vita á Íslandi

Vegagerðin annast rekstur landsvitakerfisins sem samanstendur af 104 ljósvitum, 11 siglingaduflum og 16 radarsvörum sem er komið fyrir þar sem landslagi er þannig háttað að erfitt er að ná fram endurvarpi á ratsjá skipa.

Hafnarvitakerfið er í umsjón hafna og sveitarfélaga og er byggt upp af tæplega 20 ljósvitum, um 90 innsiglingarljósum á garðsendum og bryggjum, rúmlega 80 leiðarljósalínum og tæplega 50 baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum.

Skoða má kort af vitum landsins á https://vitaroghafnir.vegagerdin.is/