Fara í efni

Ný uppfærsla á hæðarlíkani af Íslandi

Við gerð og framsetningu korta, þrívíddarvinnslu og ýmsa útreikninga varðandi náttúru landsins er gott hæðarlíkan nauðsynlegt. Landmælingar Íslands hafa nú gefið út mikið uppfærða útgáfu af ÍslandsDEM hæðarlíkaninu og er það opið öllum til gjaldfrjálsra afnota. Notagildi slíks hæðarlíkans er mikið og fyrir þá sem vinna með landupplýsingar, greiningar, hönnun og framsetningu er gríðarlega mikið hagræði fólgið í því að hafa aðgengi að nákvæmu hæðarlíkani.

Hér að neðan má sjá þrívíddarlíkan af Kirkjufelli við Grundarfjörð. Í Hálsvaðli, vestan við fjallið má sjá að hæðarupplýsingar ná víða niður fyrir strandlínu LMÍ og birta þannig hæðarupplýsingar á fjöru og grunnsævi. Á myndinni lengst til hægri hefur gervitunglamynd verið "lögð yfir" hæðarlíkanið. 

   

Hæðarlíkanið er hægt að nálgast á https://dem.lmi.is en þar er hægt að skoða það, hala niður einstökum reitum þess, hægt að hala niður upplýsingum um gæði, skoða lýsigögn og sækja slóð á svokallaða XYZ vefþjónustu. Einnig var útbúin sérstök hlíðaskygging sem hægt að nálgast sem flýtikort í gegnum vefþjónustu LMÍ og til niðurhals.

Gögnin eru að mestu unnin út frá svokölluðum ArcticDEM gögnum en einnig eru notað hæðarlíkan frá Copernicus áætlun Evrópusambandsins auk lidar- og drónagagna frá öðrum aðilum. Að auki hefur verið bætt við gögnum frá umbrotunum við Fagradalsfjall frá 8. ágúst 2021 sem byggjast á myndmælingum. ÍslandsDEM v1.0 hefur 2x2 m upplausn og er hæðarnákvæmni gagnanna að jafnaði betri en 50 cm en staðsetningarnákvæmnin er að jafnaði um 2m.