Fara í efni

Ný stefna Landmælinga Íslands

Í dag kynntu Landmælingar Íslands nýja stefnu stofnunarinnar.

Í stefnunni er ný framtíðarsýn fyrir stofnunina sett fram en hún snýr að því að landupplýsingar, sem margir þekkja sem kortaupplýsingar, verði nýttar í auknum mæli sem lykilgögn til ákvarðanatöku. Á þessi framtíðarsýn við, í sinni víðustu mynd, um allt frá ákvarðanatöku í loftslagsmálum hjá opinberum aðilum til ákvarðanatöku um leiðarval ferðamanna eða skipulags áburðargjafa í landbúnaði.

Til að ná þeirri framtíðarsýn sem sett hefur verið fram er áhersla lögð á þrjá megin þætti en það eru:

  • Traust gögn
  • Auðvelt aðgengi
  • Einföld notkun

Þessir áhersluþættir gera auknar kröfur til stofnunarinnar þar sem lykilatriðið er að tryggja traust opinber gögn í samfélaginu. Aðgengi að þeim gögnum þarf síðan að vera einfalt og opið í gegnum ný veftól sem hönnuð eru til að auðvelda almenningi, fyrirtækjum og stofnunum að nýta sér landupplýsingar til hverskyns ákvarðanatöku.

Ný stefna Landmælinga Íslands tekur einnig til nýrra krafna í vinnuumhverfi stofnana þar sem fram kemur áhersla á umhverfis- og fjölskylduvænt vinnuumhverfi með sveigjanleika, fjarvinnu og samhyggð í huga.

Nýja stefnu Landmælinga Íslands er að finna hér.