Fara í efni

Nýtt þjónustukort

Byggðastofnun hefur kynnt fyrsta áfanga þjónustukorts sem sýna á aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Markmiðið er að auka og bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þjónustu. Landmælingar Íslands hafa komið að verkefninu frá upphafi enda tengist það mjög lögbundnum verkefnun stofnunarinnar um miðlun og grunngerð landupplýsinga og ráðgjöf til stjórnvalda. Fyrsti áfangi þjónustukortsins var kynntur 16. júlí síðastliðinn með opnun vefsjárinnar thjonustukort.is og er tilgangur opnunarinnar fyrst og fremst að gefa almenningi, fyrirtækjum og sjórnvöldum kost á að koma á framfæri ábendingum og hugmyndum til Byggðastofnunar um útfærslu og þróun kortsins. Landmælingar Íslands munu, ásamt fleirum, aðstoða áfram við uppsetningu kortsins m.a. með leiðsögn um uppsetningu tæknilegra kerfa sem aðrar stofnanir geta nýtt sér til að búa sín gögn sem best úr garði. Nánar er sagt frá þjónustukortinu á vef stjórnarráðsins.