Fara í efni

Nýtt hæðarlíkan af Íslandi handa þér – gjörðu svo vel

Í tilefni þess að 30 ár voru í gær 23. febrúar 2020 frá stofnsetningu Umhverfisráðuneytisins fögnuðu Landmælingar Íslands tímamótunum með útgáfu á nýju hæðarlíkni af Íslandi sem er gjaldfrjálst og opið er öllum. Nýja hæðarlíkanið heitir ÍslandsDEM og útgáfa þess v0. Um mikið framfaraskref í opnu aðgengi að hæðarlíkani af Íslandi er að ræða. Gögnin eru að mestu unnin út frá svokölluðum ArcticDEM gögnum en einnig eru notuð lidar- og drónagögn frá öðrum aðilum (sjá heimildir hér að neðan). ÍslandsDEMv0 hefur 2x2 m upplausn og er hæðarnákvæmni gagnanna betri en 1m en staðsetningarnákvæmnin er 3m. Líkanið er enn í vinnslu og mun batna eftir því sem ný gögn eru gefin út í ArcticDEM eða hjá íslenskum aðilum og unnið er að því að lagfæra villur, slétta vötn og fleira og nefnist útgáfa þess því v0. Gert er ráð fyrir að næsta útgáfa líkansins v1 muni innihalda umtalsverðar umbætur og mikið af nýjum gögnum frá ArcticDEM, frá árunum 2018 og 2019. Hæðarlíkanið er hægt að nálgast á  http://atlas.lmi.is/mapview/?application=DEM en þar er hægt að skoða það, hala niður einstökum reitum þess, hægt að hala niður upplýsingum um gæði, skoða lýsigögn og sækja slóð á svokallaða XYZ vefþjónustu. Með líkaninu er hægt að skoða stórkostlegt landslag Íslands þar sem líkanið dregur fram ummerki ísaldarjökulsins, framhlaup, hraunstrauma og fjallgarða svo eitthvað sé nefnt. Vilji fólk sækja líkanið í einu lagi þarf að hafa samband við joaquin@lmi.is í tölvupósti vegna stærðar á skránum. Um uppruna gagna: Frá 2015 hefur verið opið aðgengi að hæðargögnum af Norðurheimskautinu (norður af 60°N, þar með talið af Íslandi). Gögnin hafa gengið undir nafninu ArticDEM og eru frá Polar Geospatial Center sem er staðsett í Háskólanum í Minnesota (https://www.pgc.umn.edu/data/arcticdem/). Gögnin urðu til við vinnslu mikils magns af landhæðarlíkönum sem unnin eru úr steríópörum af gervitunglamyndum frá WorldView 1-3 og GeoEye-1, frá árunum 2008 – 2017. ArcticDEM gögnin eru unninn með því að notast við SETSM sem er opinn hugbúnaður fyrir stafrænar myndmælingar á Blue Waters ofurtölvu Háskólans í Illinois, USA. ÍslandsDEM landhæðarlíkanið eru unnið með betrumbótum á ArcticDEM gögnunum og voru þær gerðar með aðferðarfræði sem hönnuð var í samstarf Landmælinga Íslands, Veðurstofu Íslands og Polar Geospatial Center. Þessi nýja aðferðarfræði fól í sér eftirfarandi aðferðir og betrumbætur: 1- Samræmd staðsetning allra landhæðarlíkana sem notuð voru við gerð ÍslandsDEMv0 líkansins 2-Búa til samsett landhæðarlíkan úr öllum ArcticDEM líkönunum með því að búa til þekju sem geymir tíma gagnanna. Hver pixill í samsetta líkaninu sem er unnið úr ArcticDEM er miðgildi allra líkana sem fyrirfinnast á svæðinu. 3-Lagfæringar á vötnum stærri en 2 ferkílómetrar 4-Bættum við lidar líkönum af jöklum úr Icelandic glaciers (Jóhanesson and others, 2013) 5-Bættum við gögnum sem safnað var með dróna úr Surtsey (Óskarsson and others, 2020) 6-Breyting úr geoíðu- í sporvöluhæð Sjá nánar lýsigögn á : https://gatt.lmi.is/geonetwork/srv/eng/catalog.search#/metadata/e6712430-a63c-4ae5-9158-c89d16da6361