Fara í efni

Meiri fjarvinna, minni samgöngur

Frá árinu 2014 hafa Landmælingar Íslands unnið markvisst að umhverfismálum, meðal annars með innleiðingu Grænna skrefa. Þannig hefur verið dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum í starfseminni auk þess sem leiðin hefur eflt umhverfisvitund starfsmanna. Um alllangt skeið hefur starfsfólki Landmælinga Íslands staðið til boða að vinna fjarri vinnustaðnum einn dag í viku en eftir reynslu starfsmanna af fjarvinnu vegna Covid-19 faraldursins hefur verið ákveðið að fjölga fjarvinnudögum í tvo daga í viku, fyrir þá sem vilja.

„Með því að fjölga fjarvinnudögum í tvo á viku fækkar ferðum starfsmanna sem búa utan Akraness og er þannig dregið úr kolefnisspori stofnunarinnar. Til viðbótar þá á stofnunin rafmagnsbíl og tvinnbíl sem gerir kolefnissporið enn minna.“ segir Jóhanna Hallsdóttir, fjármálastjóri, sem sér um grænt bókhald Landmælinga Íslands.

Að auki hafa starfsmenn á Akranesi verið hvattir til að koma gangandi eða hjólandi í vinnuna og nýlega fékk stofnunin silfurvottun Hjólavottunar.