Fara í efni

Loftmyndir samdægurs

Í þeim atburðum sem orðið hafa á undanförnum mánuðum á Reykjanes hefur myndmælingarteymi Landmælinga Íslands og Náttúrufræðistofnunar unnið að því að afla og miðla loftmyndum og hæðarlíkönum. Neyðaraðilar, framkvæmdaaðilar og vísindamenn hafa aðgang að frumgögnum nokkrum klukkustundum eftir að vélin fer í loftið en fyrir almenning þá hafa afurðirnar litið dagsins ljós sem þrívíddarlíkan https://sketchfab.com/natturufraedistofnun/models en einnig verið birt í Umbrotasjá https://atlas.lmi.is/mapview/?application=umbrotasja

Sá búnaður sem gerir stofnunum kleyft að bregðast svona hratt við er nýleg Phase One myndavél og hitamyndavél sem keyptar voru í samvinnu nokkurra stofnana og Háskólans, með styrk frá Innviðasjóði. Búnaðinum er komið fyrir í flugvél frá Garðaflugi og frá flugtaki og þar til vélin lendir aftur líður að jafnaði um 1 klukkustund. Myndunum , sem geta verið um eitthundrað talsins, og viðbótargögnum s.s. staðsetningu er hlaðið inn á tölvur og við tekur sálfvirk og hálfsjálvirk myndvinnsla sem tekur eina til þrjár klukkustundir, en það fer eftir stærð svæðisins sem myndað var, flughæð o.s.frv. Þessi myndvinnsla er sérstaklega flókin á þessu svæði þar sem miklar breytingar hafa orðið og eru að verða á yfirborði landisn og vegna jarðskorpuhreyfinga.

Afurðirnar eru margskonar. Það sem flest sjá er birt sem þrívíddarlíkan eða loftmynd í opnum sjám en stór hópur viðbraðgsaðila og vísindamann hefur hins vegar aðgang að frumgögnum og hæðarlíkönum sem útbúin eru samhliða myndþekjunni. Þau gögn eru gríðarlega mikilvæg til að meta aðstæður hverju sinni og hvaða sviðsmyndir séu líklegastar í framhaldinu. Það voru einmitt gögn úr slíku flugi sem sýndu fyrst hið mikla sig sem varð í austurhluta Grindavíkur í kjölfar gossins 14. janúar 2024.

Þessi hröðu viðbrögð og góð samvinna milli ýmissa stofnana gera alla ákvarðanatöku hraðari og skilvirkari en það er lýkilatriði til að tryggja öryggi íbúa og innviða.