Landupplýsingar um samfélagið - manntalsgögn
Gott aðgengi að landupplýsingum er mikilvægt fyrir samfélagið. Hingað til hefur mestur hluti slíkra gagna fjallað um umhverfismál, en nú hefur færst í aukana að annarskonar upplýsingar séu gerðar aðgengilegar svo sem um samfélagið sjálft.
Til að undirbúa manntal 2021 hefur Hagstofa Íslands skilgreint 206 smásvæði með íbúafjölda á milli 900 og 3.500 manns. Um leið var gerð sérstök útgáfa af smásvæðaskiptingunni til að flokka gögn manntalsins frá 2011. Starfsmenn Landmælinga Íslands hafa svo aðstoðað við að birta manntalsgögnin frá 2011 í opinni vefþjónustu. Alls er um að ræða 34 mismunandi flokkanir þeirra gagna, t.d. meðalaldur, hlutfall erlendra ríkisborgara og hlutfall karla og kvenna í hverju þeirra 183 smásvæða sem skilgreind voru fyrir 2011 manntalsgögnin. Hægt er að skoða gögnin í Landupplýsingagátt LMÍ en nánar er fjallað um málið í frétt á heimasíðu Hagstofunnar.
Landmælingar Íslands hafa unnið að innleiðingu laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar í tæpan áratug. Verkefnið er stórt og felur meðal annars í sér að hvetja stofnanir til þess að veita aðgengi að landupplýsingum sínum og að styðja þær í ferlinu. Samvinna Landmælinga Íslands og Hagstofunnar er gott dæmi um það þegar vel tekst til í þeim efnum.
Hér má sjá lýsigögn um smásvæði og upplýsingar um manntalið 2011 og lýsigögn um smásvæði fyrir manntalið 2021.