Fara í efni

Könnun á vef Landmælinga Íslands

Dagana 1. til 15. júní síðastliðinn var gerð könnun meðal notenda vefs Landmælinga Íslands. Könnun sem þessi hefur verið gerð nokkur undanfarin ár meðal annars til þess að fá fram hjá notendum hvernig bæta megi þá þjónustu sem vefurinn hefur upp á að bjóða og koma til móts við þarfir notenda. Fram kemur í könnuninni að langflestir sem heimsækja vefinn eru í leit að kortum, korta- og örnefnasjám. Einnig sýnir könnunin að helstu ástæður heimsóknanna eru almennur áhugi á málefnum stofnunarinnar, áhugi á útivist og vegna vinnu. Meiri hluti svarenda segir að síðan sé auðveld í notkun og að þeir séu fljótir að finna það sem þeir leita að. Þátttakendur voru spurðir hvernig þeir teldu að hægt væri að bæta vef Landmælinga Íslands. Mörg svör bárust við þeirri spurningu og  margar góðar ábendingar sem verða skoðaðar nánar þó svo að ekki sé mögulegt að bregðast við þeim öllum. Þá bárust nokkrar ábendingar sem snéru að örnefnum. Slíkar ábendingar eru afar mikilvægar en mikil og stöðug vinna við örnefnaskráningu fer fram hjá Landmælingum Íslands, meðal annars í samstarfi við staðkunnuga heimamenn víðsvegar á landsbyggðinni. Ef einhver hefur upplýsingar um það sem betur má fara í skráningu örnefna eða öðrum gögnum stofnunarinnar biðjum við viðkomandi að koma ábendingum til okkar á netfangið lmi@lmi.is Að lokum má nefna að Í könnuninni var spurt um hversu mikið traust svarendur bera til Landmælinga Íslands og sögðust 90% bera mjög eða frekar mikið traust til stofnunarinnar.  Þessar niðurstöður eru afar hvetjandi fyrir starfsfólk Landmælinga Íslands og verður áfram unnið að því að viðhalda því góða og trausta samstarfi sem áunnist hefur við notendur.