Jöklar landsins hopa – nýting opinna fjarkönnunargagna
Sýnilegt er þeim sem heimsótt hafa skriðjökla landsins reglulega að þeir hafa hopað mikið á síðustu árum. Upplýsingar um heildartap jökulíss hafa þó verið óljósar þar til nú. Í glænýrri grein sem margir helstu jöklafræðingar hafa birt í sameiningu er hulunni svift af þessari ráðgátu. Greinin kom út í vikunni í tímaritinu Frontiers in Earth Science og fjallar um jöklabreytingar á Íslandi. Greinin lýsir breytingum á stærð jökla landsins frá því að þeir voru í hámarki skömmu fyrir aldamótin 1900 og byggist hún á mjög fjölbreyttum rannsóknum sem unnar hafa verið á undanförnum áratugum. Á meðal höfunda greinarinnar eru vísindamenn frá Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, Landmælingum Íslands og Landsvirkjun sem leggja saman krafta sína en þeir eru: Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor, Eyjólfur Magnússon, vísindamaður, Finnur Pálsson, verkefnastjóri í jöklarannsóknum, Joaquín M. C. Belart nýdoktor og Helgi Björnsson, vísindamaður emeritus, en þau starfa við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og/eða Jarðvísindastofnun háskólans. Að auki er Louise Steffensen Schmidt meðal höfunda en hún er fyrrverandi doktorsnemi við Háskóla Íslands.
Niðurstöður sýna að frá um 1890 hafa íslenskir jöklar tapað að jafnaði um fjórum milljörðum tonna (Gt) á ári en heildartapið á tímabilinu liggur á bilinu 410 til 670 Gt. Á sama tíma hafa jöklarnir tapað sem nemur nærri sextán prósentum af rúmmáli sínu. Um helmingur þess tapaðist frá haustinu 1994 til haustsins 2019 en þá var heildartapið á bilinu 220 til 260 Gt, eða nálægt 10 Gt á ári að meðaltali.
Joaquín sem er meðhöfundur skýrslunnar og starfsmaður Landmælinga Íslands hefur kortlagt yfirborð íslenskra jökla á mismunandi tímum með loftmyndum, leysihæðarmælingum, hæðarsniðmælingum og gervihnattagögnum og ná þau gögn víða aftur til ársins 1945. Í þessari vinnu hefur opið aðgengi að eldri loftmyndum, hæðarlíkani og gervitunglamyndum skipti lykilatriði við greiningarnar. Opið aðgengi að fjarkönnunargögnum hefur sýnt sig vera afar mikilvægur þáttur í vinnslu við mat á breytingum jökla og verður mikilvægt að tryggja enn betra aðgengi að gögnum til framtíðar.
Háskóli Íslands hefur birt ítarlegra samantekt um greinina í frétt sinni á og eru þeir sem vilja lesa meira um rannsóknina bent á að lesa hana.