Ísland er komið inn í EGMS þjónustuna
EGMS (European Ground Motion Service) vaktar færslur á yfirborði lands og gefur öllum tækifæri á að fylgjast með og rannsaka margskonar jarðvá og manngerðar færslur á yfirborði lands. Til að mynda landris vegna bráðnunar jökla, hæðarbreytingar vegna breytinga á grunnvatnsstöðu og hægum hreyfingum á fjallshlíðum svo eitthvað sé nefnt.
Þjónustan byggir á greiningu á bylgjuvíxlgögnum frá fjölda Sentinel-1 radarmynda sem eru þær sömu og hafa verið notaðar til þess að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesi með góðum árangri.
Í þjónustunni er hægt að skoða hæðarbreytingar á landi auk þess sem hægt er að skoða austur-vestur færslur landsins fyrir tímabilið 2016-2020. Ekki er hægt að skoða norður-suður færslur með þessari tækni. Stefnt er að því að þjónustan verði uppfærð árlega með nýjum gögnum.
Þjónustan er aðgengileg á vef Copernicus áætlunarinnar