Fara í efni

Hvar er?

Landmælingar Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hrinda af stað landsátaki um afmörkun og skráningu örnefna undir heitinu Hvar er? í tilefni af degi íslenskrar náttúru.

Landsátakið mun hefjast í félagsheimilinu Lyngbrekku í Borgarbyggð 15. september nk. kl. 17.30 þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun skrá örnefni í sinni heimabyggð, Brúarlandi.

Markmið átaksins er að staðsetja sem flest örnefni úr örnefnaskrám sem nýlega voru gerðar aðgengilegar á vefnum Nafnið.is og fjölga skráningaraðilum örnefna í landinu.

Til þess þarf hjálp frá fólki sem þekkir vel örnefni á sínu svæði og til að auðvelda þeim vinnuna hafa gagnagrunnar Landmælinga Íslands og Árnastofnunar verið samtengdir og skýrar leiðbeiningar um vinnulag við verkefnið verið útbúnar. Þá eru í undirbúningi námskeið víða um land til að veita skráningaraðilum tæknilega aðstoð.

Allir sem hafa góða staðbundna þekkingu á örnefnum eru velkomnir í hóp skráningaraðila og skiptir þá engu hversu tölvufær viðkomandi er, við höfum skráningaraðferðir sem henta öllum. Hér er því einstakt tækifæri til að taka virkan þátt í að tryggja að þekking á örnefnum landsins varðveitist milli kynslóða.

Staðsett örnefni verða að lokum færð inn í örnefnagrunn Landmælinga Íslands sem er opinn öllum og aðgengilegur.

Átakið „Hvar er?” miðar að því að gera örnefni landsins að sameign okkar allra sem nýtist til hvers kyns kortagerðar og nýsköpunar.

 

Nánari upplýsingar veitir Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Landmælinga Íslands.