Fara í efni

Fornkort afhent Landsbókasafni Íslands

Á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2022, afhentu Landmælingar Íslands Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni fornkortasafn sitt til eignar og varðveislu. Gunnar Haukur Kristinsson settur forstjóri Landmælinga Íslands undirritaði gjafabréf við þetta tilefni ásamt landsbókaverði, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur.

Uppistöðu safnsins, 49 kort, keyptu Landmælingar Íslands árið 1993 af kortasafnaranum Mark Edwin Cohagen sem hafði lagt mikla alúð og vinnu bæði við söfnun og frágang þess. Í safninu eru alls 52 kort, bæði sérkort af Íslandi og kort þar sem Ísland er sýnt með öðrum löndum. Elsta kortið er frá árinu 1547 og það yngsta frá árinu 1865. Safnið spannar því rúmlega 300 ár af íslenskri kortasögu og inniheldur helstu kort hvers tímabils. Elsta kortið (Benedetto Bordone 1547) er fyrsta prentaða sérkortið af Íslandi og sýnir hugmyndir manna um landið þegar menn vissu ekki mikið meira en að Ísland væri eyja í norðri. Yngstu kortin eru síðan byggð á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar frá miðri 19. öld en það er fyrsta nákvæma vísindalega kortið af öllu Íslandi. Í safninu eru líka meðal annars góð eintök af kortum Abrahams Orteliusar og Gerhards Mercators af Íslandi gerð eftir forskrift Guðbrands Þorlákssonar biskups. Kort sem marka tímamót í þekkingu manna á Íslandi, lögun þess og stærð.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun taka stafrænar myndir af öllum kortunum og setja á vef safnsins, islandskort.is, við hlið mynda af öðrum kortum þar. Vefurinn var opnaður árið 1997 og inniheldur nú myndir af rúmlega 1.000 Íslandskortum.