Fara í efni

Uppfærslur á Umbrotasjá

Umbrotasjá er vefsjá þar sem hægt er að skoða og hlaða niður myndum og gögnum sem safnað var í nýlegum eldgosum á Reykjanesskaga á árunum 2021-2023. Frá því Umbrotasjá var opnuð árið 2021 hafa orðið þrjú eldgos á Reykjanesskaga; eitt frá mars til september 2021, eitt í ágúst 2022 og eitt í júlí og ágúst 2023.

Í Umbrotasjá eru, til dagsins í dag, yfir 40 myndmælingar en það gerir að meðaltali ein myndmæling á viku meðan á gosunum stóð. Síðasta myndmælingin fór fram í byrjun október 2023 og var gerð með nýrri myndmælingavél frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Myndunum var safnað með upplausn sem var betri en 10 cm. Hægt er að nálgast þessi gögn sem vefkort og sem WMS lag. Til viðbótar við þessa þjónustu hefur nú verið bætt við þeim möguleika að hlaða niður hæðarlíkani af Reykjanesskaganum fyrir og eftir hvert eldgos. Þessi gögn geta nýst við líkanagerð til að áætla næstu eldgos og væntanlegt hraunflæði og eru vísindamenn þegar byrjaðir að nota gögnin til líkanagerðar og undirbúnings áður en nýtt eldgos hefst á svæðinu.

Myndirnar og gögnin sem er að finna í Umbrotasjá voru útbúin af hópi sérfræðinga frá Landmælingum Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Myndirnar voru unnar á hraða samkvæmt neyðarástandi og gerðar aðgengilegar á Umbrotasjá fyrir vísindasamfélagið og ákvörðunaraðila aðeins nokkrum klukkustundum eftir að mælingum lauk. Niðurstöður þessarar vinnu hjálpa til við að útbúa hættumat vegna eldgossins og stjórnun aðgengis að svæðinu.

Útlínur hraunsins eru notaðar við undirbúning gönguleiða og til að koma á öryggissvæðum og meta umfang og rennsli hraunsins. Með þessari tegund af opinni miðlun gagna og góðri samvinnu stofnana hafa hröð viðbrögð og upplýst ákvarðanataka verið möguleg í síðustu þremur eldgosum.

Hér að neðan má sjá stutt myndband sem sýnir allar loftmyndir af umbrotasvæðinu á Reykjanesi og breytingar á útlínum hraunsins.

Made with Clipchamp