Fara í efni

Uppfærsla á IS 50V

Síðustu vikur hafa komið út nýjar útgáfu af IS 50V, alls 6 lög en það eru Mannvirki, Mörk, Samgöngur, Strandlína, Vatnafar og Örnefni

Við flesta þéttbýlisstaði landsins var strandlínan uppfærð og var þar notast við loftmyndir frá Loftmyndum ehf. Í tengslum við uppfærsluna á strandlínunni þá breyttist vatnafarið lítilsháttar.

Frá síðustu útgáfu hafa verið gerðar minniháttar breytingar á punktalagi mannvirkja og flákalag mannvirkja breyttist aðeins við uppfærsluna á strandlínunni.

Lega allra fláka markalaganna breyttust vegna uppfærslu á strandlínunni við flesta þéttbýlisstaði landsins. Fáeinar breytingar voru gerðar á póstnúmeralaginu. Breytingar voru gerðar á sveitarfélagamörkum (línur og flákar). Nokkur sveitarfélög sameinuðust 14. maí, fara úr því að vera 69 í 64. Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit sameinuðust og heitir það Þingeyjarsveit og er sveitarfélaganúmerið 6613 og er það langstærsta sveitarfélag landsins eða rúmir 12 þúsund km2. Svalbarðshreppur og Langnesbyggð sameinuðust og er sveitarfélaganúmerið 6710. Eftir á að staðfesta nafn á sveitarfélagið en líklegt þykir að Langanesbyggð verði fyrir valinu. Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur sameinuðust í Skagafjörð og er sveitarfélaganúmerið 5716. Húnavatnshreppur og Blöndósbær sameinuðust í Húnabyggð og er sveitarfélaganúmerið 5613. Stykkihólmsbær og Helgafellsbær sameinuðust, ekki er komið nafn en til bráðabirgða er notast við heitið „Sameinað sveitarfélag Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar" og er sveitarfélaganúmerið 3716. Samkomulag var gert milli sveitarfélaganna Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar um að smá partur (1,5 km2) færi yfir til Akraneskaupstaðar frá Hvalfjarðarsveit, tók gildi 7. júní síðastliðinn. Ýmsan fróðleik um sveitarfélögin er hægt að finna hér.

Örnefnalagið er stöðugt að breytast og frá síðustu útgáfu í mars hafa verið sett inn örnefni víða um land, auk þess sem nöfn smájökla landsins voru teiknuð inn. Alls voru nýskráningar og lagfæringar 4300 á tímabilinu. Heildarfjöldi örnefna í útgáfunni er nú tæplega 159 þúsund. Uppfærð örnefni birtast vikulega í vefsjám.

Í samgöngulagið var aðeins breyting á flokkun vega í Vatnajökulsþjóðgarði, vegir sem voru flokkaðir lokaðir eru nú flokkaðir opnir. Þetta var gert í góðri samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð. Ýmsar leiðréttingar voru gerðar, vegayfirborðið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum.

IS 50V gögnin má nálgast á niðurhalssíðu LMÍ og hægt að skoða þau í flestum kortasjám LMÍ.