Fara í efni

Hvar er? átakinu hleypt af stokkunum

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru hefur Hvar er? landsátakinu verið hleypt af stokkunum. Landmælingar Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum standa saman að þessu átaki og hófst það formlega í Lyngbrekku á Mýrum í gær með því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra fjallaði um mikilvægi örnefna í fortíð, nútíð og framtíð og skráði svo fyrsta örnefnið í sinni heimabyggð, Brúarlandi. 

Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Landmælinga Íslands, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ragnhildur Helga Jónsdóttir, aðjúnkt hjá Landbúnaðarháskóla Íslands héldu stutt erindi um mikilvægi örnefna og skráningu þeirra í gagnagrunna. Í máli þeirra allra kom fram hversu gríðarlega mikilvæg örnefni séu á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins og geysilega verðmætur menningararfur sem verði að varðveita.

Markmið Hvar er? átaksins er að staðsetja sem flest örnefni úr örnefnaskrám sem nýlega voru gerðar aðgengilegar á vefnum Nafnið.is og fjölga skráningaraðilum örnefna í landinu. Staðsett örnefni verða að lokum færð inn í örnefnagrunn Landmælinga Íslands sem er opinn öllum og aðgengilegur.

Hér er hægt að fá nánari upplýsingar um Hvar er? verkefnið

Hér er hægt að skoða myndband um Hvar er? landsátakið

Hér að neðan eru myndir frá opnuninni.