Fara í efni

CORINE-flokkunin - Rýrnun jökla 2000 – 2018

Síðujökull. Línurnar sýna legu jökuljaðarins samkvæmt CORINE kortlagningunni.
Síðujökull. Línurnar sýna legu jökuljaðarins samkvæmt CORINE kortlagningunni.
Í CORINE landflokkunarverkefninu eru breytingar á landgerðum/landnotkun kortlagðar á 6 ára fresti. Seinustu CORINE-kortlagningu lauk 2018 og var heildarflatarmál allra breytinga frá 2012 um 770 km2. Margar landgerðir stækka staðbundið á ákveðnum stöðum, en  minnka annars staðar. Til dæmis stækkar flokkurinn „332 Ógróin hraun og urðir“ um 266,5 km2 aðallega þar sem land kemur undan jökli en minnkar um 112,7 km2 vegna landgræðslu eða aukningar á náttúrulegri gróðurþekju. Heildarbreyting á flatarmáli þessa flokks er því ekki nema 153,8 km2. Stærsta einstaka landgerðabreytingin á Íslandi er rýrnun jöklanna. Milli áranna 2012 og 2018 minnkaði flatarmál þeirra um 215 km2 en frá árinu 2000 hafa þeir minnkað um 647 km2 eða um 36 km2 á hverju ári að meðaltali. Það er 5,8% rýrnun á þessu 18 ára tímabili. Myndin sýnir Síðujökul sem er skriðjökull suður úr vestanverðum Vatnajökli. Línurnar sýna legu jökuljaðarins samkvæmt CORINE kortlagningunni:
  • Árið 2000: Blá lína
  • Árið 2006: Græn lína
  • Árið 2012: Rauð lína
  • Árið 2018: Gul lína
Rýrnun Síðujökuls hefur verið nokkuð jöfn á þessu 18 ára tímabili sem sést á því að fjarlæðin milli línanna er svipuð. Frá árinu 2000 hefur jökullinn hopað um 1200 – 1300 metra eða um 70 metra á hverju ári að meðaltali.