Fara í efni

Loftmyndataka af Íslandi boðin út

Ríkiskaup hafa fyrir hönd umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins birt opinbert útboð (21779) um öflun loftmynda af Íslandi. Markmið útboðisins er að búa til nákvæmt loftmyndakort sem nær yfir allt landið. Myndataka mun líklega hefjast í sumar, 2023, og er gert ráð fyrir að halda áfram þar til allt landið hefur verið kortlagt, eftir um 3 – 5 ár. Myndataka og vinnsla myndanna verður framkvæmd af þeim aðilum sem bjóða í verkið.

Myndkortið og þær loftmyndir sem verða til í þessu verkefni verða öllum opnar og til frjálsta afnota, bæði hjá opinbera- og í einkageiranum. Myndirnar verða í 25 x 25 cm upplausn um allt land og 10 x 10 cm upplausn á höfuðborgarsvæðinu (þar á meðal í Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjavík, Mosfellsbæ og Akranesi) og á stóru svæði í kringum Keflavíkurflugvöll. Gögnin verða aðgengileg í vefsjám og í vefþjónustu (WMS lag) til notkunar í GIS hugbúnaði. Notendur munu einnig geta hlaðið myndum niður án endurgjalds.

Landmælingar Íslands hafa fengið ráðgefandi hlutverk í útboðinu, auk þess að tryggja gæði og nákvæmni gagna. Sem hluti af þeirri vinnu mun LMÍ setja út kontrólpunkta um allt land, með sérstakri áherslu á þéttbýli fyrir meiri nákvæmni. Þessir kontrólpunktar eru venjulega hvítir ferningar, um 60 x 60 cm að stærð, hannaðir til að sjást á fjarkönnunarmyndum. Markmið með gerð þeirra er að fá nákvæmari staðsetningu á loftmyndunum en um leið öðrum fjarkönnunargögnum eins og gervitunglamyndum.