Fara í efni

Samstarfssamningur milli LMÍ og HÍ

Þann 11. febrúar sl. var endurnýjaður samningur milli Landmælinga Íslands og Háskóla Íslands um samstarf á sviði fjarkönnunar sem staðið hefur síðan árið 2000. Samkvæmt þessum samningi vinna Landmælingar Íslands og Háskóli Íslands að eflingu fjarkönnunarrannsókna á Íslandi. Háskóli Íslands verður aðili að fjarkönnunarstarfsemi hjá Landmælingum Íslands og munu samningsaðilar starfa saman og skiptast á fjarkönnunargögnum. Einnig munu stúdentar við Háskóla Íslands geta stundað nám í fjarkönnun í nánu samstarfið við Landmælingar Íslands. Dr. Kolbeinn Árnason mun sinna þessu starfi áfram eins og verið hefur og hafa starfsaðstöðu hjá Landmælingum Íslands. Nýlega veitti Rannís þriggja ára rannsóknarstyrk til verkefnisins „Skynjun á breytingum með fjarkönnun“ (Change detection with optical remote sensing) sem báðar stofnanirnar eru aðilar að. Tilgangur verkefnisins er að þróa hugbúnað til þess að uppgötva og kortlegjja breytingar á landyfirborði með samanburði á gervitunglamyndum sem teknar eru með nokkurra ára millibili. Hugbúnaðurinn mun m.a. auðvelda uppfærslu á landflokkunarverkefnum sem unnið er að hjá Landmælingum Íslands. Jón atli Benediktsson, prófessor, er verkefnisstjóri en dr. Prashanth Marpu, nýdoktor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ, mun vinna að verkefninu ásamt meistara- og doktorsnemum í rafmagns- og tölvuverkfræði við HÍ í nánu samráði við Landmælingar Íslands. Á myndinni, sem tekin var við undirritun samningsins á skrifstofu rektors HÍ, eru frá vinstri Prashanth Marpu, Magnús Guðmundsson forstjóri LMÍ, Jón Atli Benediktsson aðstoðarrektor vísinda og kennslu við HÍ og Kolbeinn Árnason sameiginlegur starfsmaður LMÍ og HÍ.