Fara í efni

Landupplýsingar og loftslagsmál - ráðstefna

Ráðstefnunni er ætlað að leggja áherslu á „stóra samhengið“ eins og heiti ráðstefnunnar gefur til kynna. Sagt verður frá verkefnum sem tengjast loftslagsmálum og landupplýsingum stofnana sem tengjast þeim. Meðal annars verður sagt frá gögnum um jökla og strandlínu Íslands, aðgengi að loftslagsgögnum og loftslagsbókhaldinu svo eitthvað sé nefnt. Einnig verðu nýtt mælaborð kynnt þar sem hægt er að fylgjast með stöðunni á innleiðingu grunngerðar landupplýsinga hér á landi. Dagskrá verður birt á næstu dögum ásamt upplýsingum um tengingu á fundinn.

Hlekkur á fundinn: https://bit.ly/39JT1WQ

Það er mikilvægt að stuðla að samræmdri grunngerð landupplýsinga á Íslandi þar sem gögn eru aðgengileg fyrir alla hagsmunaaðila, á samræmdan hátt, þannig að þau nýtist sem flestum og ekki síst í verkefni sem tengjast umhverfismálum.

Lögin um grunngerð stafrænna landupplýsinga á Íslandi tóku gildi árið 2011 og eru að mestu byggð á INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins. Tilskipunin styður við uppbyggingu grunngerðar landupplýsinga í Evrópu sem er nauðsynleg fyrir umhverfisstefnu Evrópusambandsins og verkefni sem tengjast henni.

Grunnhugsunin á bak við grunngerð landupplýsinga er að opna aðgengi að gögnum sem opinberir aðilar eiga þannig að sem flestir geti nýtt sér þau, en jafnframt og ekki síður að gögnin nýtist í þágu umhverfismála. Frá árinu 2011 hefur jafnt og þétt verið unnið að því að byggja upp stafræna grunngerð landupplýsinga hér á landi.

Við þurfum að búa okkur undir breyttan heim. Landupplýsingagögn eru mikilvæg grunnstoð til að styðja við markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 og kolefnislausa Evrópu árið 2050.

Þess vegna viljum við ítreka lagalegar skyldur opinberra aðila. En árið 2015 átti að vera búið að skrifa lýsigögn fyrir öll gögn sem tilheyra grunngerð landupplýsinga. Við erum ekki búin að ná þessum áfanga og þessum hluta verkefnisins því enn ekki lokið. Fjöldi gagnasetta sem tilheyra grunngerðinni eru 326, þar af er búið að skrá lýsigögn fyrir 190 og veita aðgang að þjónustum fyrir 58 gagnasett. Þannig að betur má ef duga skal.

Landmælingar Íslands hafa að undanförnu unnið að mælaborði sem sýnir stöðuna á innleiðingu grunngerðar stafrænna landupplýsinga hér á landi. Það var útbúið í þeim tilgangi annars vegar að aðstoða Umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að fylgjast með stöðu innleiðingarinnar. Hins vegar nýtist það þátttakendum í grunngerðarverkefninu til að átta sig á skyldum sínum, þ.e.a.s. hvaða gögn þeir halda utan um og þurfa að skrá lýsigögn um, birta til skoðunar og veita aðgang að til niðurhals.

DAGSKRÁ