Fara í efni

Orkustofnun afhendir Landmælingum Íslands gamlar loftmyndafilmur

Orkustofnun hefur afhent Landmælingum Íslands loftmyndafilmur frá tveimur rannsóknaleiðöngrum bandarískra aðila hér á landi í apríl og ágúst árið 1968. Um er að ræða afrit af frumfilmum sem send voru hingað til lands fljótlega eftir myndatökuna, en ekki er vitað hvar frumfilmurnar eru geymdar í Bandaríkjunum. Alls er um að ræða um 550 svarthvítar og innrauðar litmyndir af svæðum á Suðvestur-, Suður- og Austurlandi. Sambærileg afrit eru til af um helmingi myndanna í loftmyndasafni Landmælinga, en hinn helmingurinn var ekki til í safni stofnunarinnar. Með filmunum fylgdu ýmis gögn eins og myndalistar og afrit úr flugdagbókum.

Myndirnar verða nú skannaðar og settar á vef Landmælinga Íslands til niðurhals eins og aðrar loftmyndir stofnunarinnar sem til eru á stafrænu formi. Á undanförnum árum hafa um 70.000 loftmyndir verið skannaðar og er áætlað að það taki nokkur ár til viðbótar að skanna þann fjölda loftmynda sem eftir eru á filmum.

Skoða má loftmyndasafn Landmælinga Íslands hér