Fara í efni

Eldra leyfi fyrir gjaldfrjáls gögn frá Landmælingum Íslands

Opin gögn frá Landmælingum Íslands sem sótt voru fram til 30. september 2020 falla undir eftirfarandi notkunarleyfi:

 

Leyfi, samkvæmt 31. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og lögum um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006, fyrir gjaldfrjáls gögn frá Landmælingum Íslands

Höfð var hliðsjón af breska leyfinu „Open government licence“ http://www.nationalarchives.gov.uk/doc/open-government-licence/

Þú ert hvattur til að nota og endurnýta þær upplýsingar sem eru gerðar aðgengilegar samkvæmt þessu leyfi, að uppfylltum eftirfarandi skilmálum og viðauka 1.

Notkun upplýsinga með þessu leyfi

Með notkun efnis sem hefur verið gert aðgengilegt samkvæmt þessu leyfi (hér eftir kallað „upplýsingarnar“) telst þú hafa samþykkt eftirfarandi skilmála og skilyrði.

Landmælingar Íslands gefa þér ótímabundið leyfi til varanlegrar notkunar upplýsinganna hvar sem er, án gjaldtöku og gefur eftir einkarétt sinn, sé honum til að dreifa, að uppfylltum skilyrðunum hér fyrir neðan.

Þetta leyfi skerðir ekki réttindi notenda skv. 2. kafla höfundalaga nr. 73/1972 um takmarkanir á höfundarétti.

Þú færð leyfi til að:

  • afrita, birta, dreifa og senda upplýsingarnar,
  • aðlaga upplýsingarnar og
  • endurnýta upplýsingarnar í hagnaðarskyni til dæmis með því að setja þær saman við aðrar upplýsingar eða með því að hafa upplýsingarnar sem hluta af þinni vöru eða hugbúnaði.

Þú verður, þegar þú gerir eitthvað af ofantöldu, að:

  • láta koma fram að þær upplýsingar sem byggt er á stafi frá Landmælingum Íslands með eftirfarandi texta: Byggt á gögnum frá Landmælingum Íslands. Einnig skal vísa í þetta leyfi þar sem því verður við komið.

Gættu að því að:

  • þú notir ekki upplýsingarnar með þeim hætti að þú gefir til kynna að þú sért í opinberri stöðu eða að upplýsingaveitandinn samþykki þig sérstaklega sem notanda eða notkun þína á upplýsingunum;
  • þú villir ekki um fyrir öðrum eða birtir upplýsingarnar eða getir um uppruna þeirra með villandi eða röngum hætti;
  • notkun þín á upplýsingunum stangist ekki á við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 eða 6. gr. upplýsingalaga um gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti almennings.

Ef þú fylgir ekki þessum skilyrðum eru réttindi þín samkvæmt þessu leyfi sjálfkrafa afturkölluð.

Undantekningar

Þetta leyfir nær ekki til notkunar á:

  • persónuupplýsingum;
  • einkennismerki opinberra aðila eða skjaldarmerki nema þar sem þau geta talist mikilvægur hluti af skjalinu eða gagnasafninu;
  • réttindindum þriðja aðila sem Landmælingar Íslands hafa ekki heimild til að gefa út undir þessu leyfi;

Engin ábyrgð

Landmælingar Íslands eru undanskildar fyrirsvari, ábyrgð, skyldum og skaðabótum í tengslum við upplýsingarnar að því marki sem lög leyfa.

Landmælingar Íslands bera ekki ábyrgð á neinum villum eða vanskráningu í upplýsingunum og skulu ekki vera ábyrgar fyrir neinu tapi, meiðslum eða skaða sem hlýst af notkun þeirra. Landmælingar Íslands ábyrgjast ekki áframhaldandi aðgengi að upplýsingunum.

Gildandi lög

Þetta leyfi er háð lögum í því lagaumhverfi þar sem upplýsingaveitandinn hefur aðsetur nema annað sé tekið fram af upplýsingaveitandanum.

Skilgreiningar

Í þessu leyfi hafa orðin hér fyrir neðan eftirfarandi merkingu:

„upplýsingar“
stendur fyrir þær upplýsingar sem falla undir höfundarétt eða vernd gagnagrunna (til dæmis bókmennta- eða listaverk, efnisinnihald, gögn eða frumkóta hugbúnaðar) sem eru gefin út samkvæmt skilmálum þessa leyfis.

„nota“
sem sagnorð, stendur fyrir framkvæmd þeirra aðgerða sem eru varðar með höfundarétti eða vernd gagnagrunna, hvort sem er með upprunalegum miðli eða öðrum miðli og felur í sér takmörkun á dreifingu, fjölfjöldun, aðlögun og breytingum sem eru tæknilega nauðsynlegar til notkunar með öðrum hætti eða á öðru sniði.

„þú“
stendur fyrir einstakling eða lögaðila eða hóp slíkra aðila sem fær þau réttindi sem leyfið veitir.

Landmælingum Íslands 10. september 2013.

Viðauki 1.
Vegna aðgerða íslenskra stjórnvalda til að koma í veg fyrir akstur utan vega og við að takmarka eða koma í veg fyrir umferð á ákveðnum svæðum landsins þá taka Landmælingar Íslands það fram að notendur afhentra gagna bera sjálfir ábyrgð á að fylgjast með því ef og þegar vegum og slóðum er lokað tímabundið eða að fullu fyrir almennri umferð. Slíkar aðgerðir stjórnvalda ganga alltaf lengra en upplýsingar um vegi og slóða í gagnagrunnum Landmælinga Íslands á hverjum tíma.