Fara í efni

Gagnalýsingar leysa staðal og fitjuskrár af hólmi

Í dag fellur úr gildi íslenski staðallinn ÍST 120 Skráning og flokkun landupplýsinga - Uppbygging fitjuskráa. Fitjukrár sem tengjast honum eru eftir sem áður aðgengilegar á heimasíðu Landmælinga Íslands. Niðurfelling staðalsins er gerð í samráði við LÍSU samtök um landupplýsingar og Staðlaráð Íslands, en útgáfa staðalsins var í samstarfi Landmælinga Íslands, staðlahóps LÍSU samtakanna og Staðlaráð.

Gagnalýsingar um hvert þema koma til með að leysa staðalinn og fitjuskrárnar af hólmi, en á síðustu vikum hefur verið unnið að gerð gagnalýsingar fyrir örnefni og hafin er vinna við gagnalýsingu fyrir mörk. Gagnalýsingarnar eru gerðar í samræmi við ÍST EN ISO 19131:2007 um gagnalýsingar fyrir landupplýsingagögn og eftir atvikum í samræmi við aðra staðla í sömu staðlaröð frá tækninefnd TC211 hjá ISO. Gagnalýsingar eru umfangsmeiri en fitjuskrár og lýsa gagnasöfnum í heild sinni. Fitjuskrá er hluti af gagnalýsingum.

Fyrri útgáfa staðalsins var gefin út árið 2008 og var hann ásamt tilheyrandi fitjuskrám unnin í miklu og góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Á þessum tíma stóð landupplýsingasamfélagið frammi fyrir þeirri áskorun að innleiða samræmt verklag við skráningu fitjutegunda og eiginda sem tengjast þeim. Mikil þróun hefur átt sér stað síðan þá og í dag eru allir sammála um að það eigi að vera ákveðið samræmi sem auðveldar notendum landupplýsinga að miðla gögnum sín á milli. Þó svo að staðallinn hafi verið felldur niður, þá er það eftir sem áður svo að sömu reglur gilda um samræmda skráningu fitjutegunda og eiginda. Smátt og smátt munu fyrrnefndar gagnalýsingar leysa fitjuskrárnar af hólmi en þær eru eftir sem áður aðgengilegar á heimasíðu Landmælinga Íslands.

Eftir sem áður er áherslan á gott samstarf við hagsmunaaðila hvers þema, enda er hér um langtíma samræmingarverkefni að ræða.