Fara í efni

Fjarvinna eykst

Á síðastliðnum 12 mánuðum hafa miklar breytingar orðið á starfsumhverfi Landmælinga Íslands vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Um 40% starfsmanna hafa að mestu leyti unnið heima og á sama tíma hefur tækni og búnaður til fjarvinnu tekið miklum framförum. Þetta hefur haft talsverðar breytingar í för með sér varðandi samskipti á milli starfsmanna og við samstarfsaðila og eru fjarvinnufundir orðnir eðlilegur hluti af daglegum störfum starfsmanna stofnunarinnar.

Við samantekt á niðurstöðum markmiða ársins, var árið 2020 ekki lakari en árið á undan, þrátt fyrir mikla fjarvinnu starfsmanna. Í framhaldi af þessari góðu reynslu af fjarvinnu hefur verið ákveðið að fjölga þeim dögum sem starfsfólk LMÍ getur unnið utan stofnunar úr tveimur í þrjá. Fasta tvo daga í viku mæta allir starfsmenn á Akranes því þrátt fyrir alla nútíma tækni þá eru bein mannleg samskipti áhrifaríkari þegar kemur að hópastarfi, skapandi vinnu og félagslegum samskiptum.

Þar sem þriðjungur starfsfólks LMÍ er búsettur utan Akraness, flestir á höfuðborgarsvæðinu, þá verða hliðaráhrif þessara breytinga þau að minni tími fer í ferðir sem dregur úr umhverfisáhrifum samgangna. Að auki mun starfsfólk eiga auðveldara með að samræma vinnu og heimilislíf.

Að lokum má nefna að það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að auglýsa störf án staðsetningar og má segja að með þessu skrefi í átt að aukinni fjarvinnu sé verið að undirbúa möguleg framtíðarstörf hvar sem er á landinu. Breytingar þessar verða endurskoðaðar við árslok til að meta áhrif þeirra á verkefni, starfsandann og líðan fólks.