Stafrænn kortagrunnur af öllu Íslandi
Stafræni gagnagrunnurinn IS 50V er stöðugt í endurskoðun og vinnslu hjá Landmælingum Íslands. Hann er í notkun hjá mörgum stofnunum og sveitarfélögum auk þess að vera nýttur í kortaútgáfu og leiðsögukerfi fyrir bíla. Við endurskoðun gagnanna er stuðst við margvíslegar heimildir og gögn s.s. GPS mælingar á vegum, loftmyndir, SPOT-5 gervitunglamyndir og gögn frá öðrum stofnunum og sveitarfélögum.
Útgáfuform IS 50V gagnasettsins hefur breyst í kjölfar þess að gögnin eru gjaldfrjáls. Nú er útgáfan bundin við hvert gagnasett (lag) fyrir sig og 1. júlí 2013 komu öll gagnasettin út á nýja útgáfuforminu. Síðan fer það eftir tíðni uppfærslu hvers lags, hversu oft það kemur út. Ekki er lengur talað um sérstakt útgáfunúmer heldur verður notast við útgáfudagsetningu.
Grunnurinn í IS 50V gagnasettinu samanstendur af 8 lögum. Skiptingin er eftirfarandi:
hæðarlínur og hæðarpunktar, mannvirki, mörk, samgöngur, vatnafar, strandlína, yfirborð og örnefni. Með gögnunum fylgja lýsigögn (metadata).
Hægt er að fá gögnin á eftirfarandi formati: GDB og SHP.
IS 50V gagnasettið er í keiluvörpun Lamberts og hnattstöðuviðmiðunin er ISN93 eða ISN2004. Öll lögin eru flokkuð eftir ÍST120:2012 staðlinum.
Hæðarlíkan sem m.a. er byggt á IS 50V hæðarlínum er ekki hluti IS 50V en fáanlegt á niðurhalssíðunni.